logo-sprettur

Sprettur og Form5 verða Kolibri

Í þau sjö ár sem Sprettur hefur verið til hefur margt drifið á daga okkar og við vaxið sem manneskjur og fyrirtæki. Þetta er búið að vera meiriháttar skemmtilegt ferðalag en það er svo sannarlega ekki búið! Í dag erum við með spennandi fréttir - en áður en við skellum henni fram langar okkur að fara aðeins yfir söguna.

Þegar við stofnuðum fyrirtækið var tilgangurinn að hrinda af stað byltingu í íslenskri upplýsingatækni með stjórnunar- og tækniaðferðir Agile hugmyndafræðinnar að vopni.

Fyrsta skref byltingarinnar var að halda Agile Ísland ráðstefnuna í ágúst 2007. Ráðstefnuna höfum við svo haldið á hverju ári og verður hún nú haldin í áttunda sinn þann 5. nóvember.

Á fyrstu ráðstefnunni fundum við samstundis fyrir miklum áhuga á Agile hugmyndafræðinni og til að láta kné fylgja kviði hófum við að bjóða upp á Agile stökkpallinn. Sú þjónusta hafði það markmið að koma teymum hratt og örugglega af stað með Agile vinnukerfi eins og Scrum, Kanban eða einhvers konar blöndu sem hentaði hverju sinni.

Sprettur bauð upp á Agile stökkpallinn til ársins 2012 þegar við tókum strategíska ákvörðun um að einbeita okkur alfarið að því að vera hugbúnaðarfyrirtæki.

Við höfum notið þess heiðurs að þróa hugbúnaðarlausnir með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins og frá stofnun hjálpað yfir 100 teymum að komast af stað með að nota Agile aðferðir.

Við horfum stolt til baka og getum með sanni sagt að við breyttum því hvernig hugbúnaður er þróaður hér á landi og má segja að Agile aðferðir séu orðnar mjög “mainstream” – svo við slettum aðeins. Hér á landi eru þessar aðferðir m.a. stundaðar hjá nýsköpunarfélögum, bönkum, tryggingafélögum, framleiðslufyrirtækjum, vöruþróunarfyrirtækjum, ríkisstofnunum, leikjafyrirtækjum og símafyrirtækjum auk þess að vera í vaxandi mæli kenndar í háskólum landsins.

Tilgangur okkar sem fyrirtækis hefur þróast í gegnum árin en frá 2010 hefur hann verið að gera vinnu fólks mannlegri, meira skapandi og árangursríkari. Við uppfyllum þennan tilgang með því að vinna í teymum með viðskiptavinum okkar að vöruþróun þar sem hugbúnaður er aðal innihaldið.

Við lítum á fyrirtækið okkar sem lífveru með sína eigin sál og tilgang. Nú eins og áður er tilgangur þess að þroskast og breytast og í dag erum við með skemmtilegar fréttir:

Sprettur hefur í dag sameinast hönnunarstúdíóinu Form5 og kynnum við nýtt félag – Kolibri. Það dregur nafn sitt af einu best hannaða dýri fuglaríkisins og ástríðutákni ýmissa menningarheima.

Kolibri mun sameina það besta úr fyrirtækjunum tveimur til að hanna og þróa einstakar viðskiptaupplifanir. Það sem fólkið í Kolibri á sameiginlegt er að vilja vinna í ástríðufullu og mannlegu umhverfi að þróun á vörum sem gera líf okkar allra betra.

Nú hefst nýr kafli í sögu Spretts – undir merkjum Kolibri. Við erum spennt og hlökkum til að vinna með ykkur!

Heimsækja Kolibri